Keeping a finger on the pulse

Dans er melting fyrir sálina

in BLOG/IS by

Pistillinn var skrifaður fyrir Tengivagninn á Rás1 og birtist þar, miðvikudaginn 22. júlí 2020, og á vefsíðu RÚV, mánudaginn 27. júlí 2020.

Allir að þurfa að dansa, allavega stundum. Dansa til að hreinsa út tilfinningar sínar eða dansa til að finna aftur gleðina. Hér á Íslandi er algengt að dansa eins og hálfviti þó það sé bannað að vera fáviti, eins og allir vita. Svo getur maður dansað innra með sér og varla hreyft líkamann, þannig að maður fái ekki titilinn „partýdýrið á dansgólfinu“.

Það má dansa þangað til að maður nær ekki lengur andanum eða til þess að finna lausnir á gátum lífsins. Það má dansa rólega í niðamyrkri eða kröftuglega í birtunni þegar sólin er ekki enn sest – og öfugt. Dans er meltingarvegur sálarinnar að mínu mati. Þá mætti spyrja, hvers konar nútímatónlist fær okkur til að dansa?

Þá rifjast upp fyrir mér allir tónleikarnir, sem hafa snert mig á mismunandi hátt, en urðu til þess að ég forðaðist að dansa við lifandi tónlist. Mér finnst menningin allt öðru vísi þegar kemur að virkri þátttöku á tónleikum og tilfinningatjáningu á Íslandi, samanborið við það sem ég var alin upp við. Allt í einu fannst mér ekki eðlilegt að tjá viðbrögð mín við tónlist með hreyfingu.

Nú, eftir nokkur ár á Fróni, er ég farin að hlýða reglunum um að hámark tilfinningatjáningar sé að klappa þegar flutningur lags er búinn. Stundum sakna ég þess þó að finna bjarmann úr augum tónleikagesta, að heyra hvernig þeir syngja með, þótt textarnir séu kannski ekki á móðurmáli þeirra, og að sjá hvernig þeir tjá viðbrögð sín við tónlistinni með því að dansa.

Ég dansa þess vegna inni í mér þar sem enginn sér til. Eins og um daginn þegar ég fékk skilaboð frá góðum tónlistarfélaga: „Þú VERÐUR að fara á þessa tónleika í kvöld.“ Ég þurfti ekki hugsa mig um tvisvar. Ég treysti félaga mínum Bartek Wilk fullkomlega þegar kemur að íslenskri tónlist því við höfum unnið saman að muzykaislandzka.pl í áratugi. Þess vegna lagði ég af stað í óvissuferð þetta kvöld og lenti á útgáfutónleikum MSEA þar sem hún kynnti plötu sína „Hiding Under Things“.

Maria-Carmela Raso, eða MSEA, er tónskáld og söngkona sem skapar einstakan tónlistarheim. Tónleikar hennar voru haldnir í Iðnó, sem mér finnst fullkomið rými fyrir þessa veislu fyrir augu og eyru. Maria-Carmela Raso umvafði mig þægilega tónlist sinni.

Undir nafninu MSEA notar hún hljóð úr náttúrulegum og rafrænum heimi, þar sem fíngerð rödd hennar, rafhljóð og hljóðsamsetning, skapa nýja upplifun í hvert sinn sem hún flytur tónlist sína. Hún spinnur sinn eigin hljómaþráð sem hún teygir og togar. Í tónlist hennar fléttast saman ambient, raftónlist, trip-hop, stundum jafnvel djass. Þessi tónlist fær mig til að halda niðri í mér andanum.

Þetta voru indælir tónleikar, þar sem MSEA kom fram með hljómsveit á sviði; trommum, bassa og gítar. Það er auðvelt að sogast inn í takta tónlistar Mariu Carmelu. Smám saman byrjar maður að hreyfa sig, fyrst hreyfist heilinn, svo líkaminn. Hluti upplifunarinnar á þessum tónleikum var fólginn í mjög áhugaverðri leikmyndahönnun.

Tónlist MSEA ein og sér er balsam fyrir sálina, en listatvíeykið Raphaël Alexandre og Claire Paugam komu listrænni upplifuninni á efsta stig! Ég hef líka farið á tónleika hjá MSEA þar sem hún var ein með hljóðnema og nokkrar græjur. Tónlist hennar stendur fyrir sínu við mismunandi aðstæður svo ég leyfi mér að loka augunum og svífa í innri dansi á milli svefns og vöku. Þetta kalla ég sannkallaða gæðastund.

MSEA sendi frá sér plötuna „Hiding Under Things“ fyrir rúmlega ári síðan. Árið 2017 kom fyrsta EP platan hennar út, Forest Lady með þremum frumsömdum lögum. Ég fékk þann heiður að fá að hlusta á næstu plötu MSEA sem er væntanleg í október. Það er plata sem vex með hverri hlustun og ég bíð spennt eftir að leyfa ykkur að hlusta á hana og gleyma ykkur í innri (og mögulega líka ytri) dansi. Á meðan getið þið haft augun opin fyrir fyrstu smáskífunni hennar sem kemur út í byrjun september. MSEA er líka virk í tónleikahaldi og spilar mánaðarlega á Loft Hostel í Bankastræti í gegnum tónleikaseríuna Can’t Think Just Feel, sem hún skipuleggur.

Á unglingsárum mínum uppgötvaði ég trip-hop. Mamma mín hlustaði endalaust á Portishead sem ég jafnaði svo út með rythma Massive Attack. Þessar tónlistarhetjur höfðu áhrif á mig áður en mér datt í hug að hlusta á Tricky. Tónlist hans kynntist ég í gegnum Björk þegar ég var ekki orðin átján ára. Nostalgían nær þannig alltaf tökum á mér þegar ég heyri sjarmerandi dimmar bassalínur, þunga trommutakta og karlmannsrödd sem syngur laglínur fullar af orðaflaumi.

Þegar ég heyrði nýja EP-plötu hljómsveitarinnar Cryptochrome, „Lovelife“, sem kom út í byrjun febrúar á þessu ári, missti ég mig algjörlega í dansi inni í hausnum á mér á göngu um miðbæinn. Stundum heyri ég tónlist sem er unnin, tekin upp og gefin út í slíkum gæðum, að það er eins og hún vaxi upp úr staðbundnu tónlistarrýminu hér. Þetta á sannarlega við um Cryptochrome. BBC hefur veitt þeim verðskuldaða athygli á síðustu mánuðum, RÚV ætti kannski að gera það líka?

Ég þurfti aðeins að rannsaka hvernig Cryptochrome varð til. Hljómsveitin var stofnuð árið 2013 í Reykjavík og er skipuð þeim Unu Stígsdóttur og Anik Karenssyni, þó á tímabili hafi Cryptochrome samanstaðið af þremur til fjórum alþjóðlegum meðlimum, taktsmiðum.

Að hafa reynslubolta á við Anik á okkar íslenska heimavelli er mikil blessun þar sem hann er uppspretta þekkingar fyrir aðra tónlistarmenn í Reykjavík. Áður en hann flutti til Íslands fyrir um það bil fimmtán árum starfaði hann í hiphop-senunni og tónlistariðnaðinum í London. Það ætti því alls ekki að koma á óvart að mér finnist gæði tónlistar Cryptochrome virka eins og verið sé að sprengja þakið á íslensku senunni.

Una er myndlistarkona sem starfar við sviðsmynda- og búningahönnun fyrir leiksýningar. Það útskýrir af hverju hljómsveitin skreytir oft tóna sína með alls konar sjónlist. Eftir útgáfu fyrstu plötunnar Cryptochrome árið 2013, kom önnur plata þeirra 2017, sem ber heitið „More Human“. Hljómsveitin gaf út eitt tónlistarmyndband á mánuði í heilt ár samhliða útgáfu plötunnar. Áhugavert verkefni til að skoða og það bara í rúman hálftíma!

Það eru vissulega gimsteinar hér innan hefðbundnu tónlistarsenunnar. Bæði MSEA og Cryptochrome vaxa úr íslenskum jarðvegi og með íslenska tónlistarmenn um borð. Ekki má þó gleymast að þessi hljómafegurð gæti ekki skinið, snert eða hreyft við hlustendum á þennan hátt ef ekki væri fyrir fjölbreytta reynslu þessara einstaklinga í tónlistarlífinu utan Íslands og fjölbreytt tónlistaruppeldi þeirra.

Skapandi tónlistarfólk frá öllum heimshornum, eins og Maria-Carmela og Anik, valdi sér Ísland sem heim sinn og hefur nýtt svakalega langar og dimmar vetrarnætur til að semja tónlist fyrir sálar- og líkamsdansinn minn og þinn. Mér finnst það vera forréttindi að hafa möguleika á að nýta hæfileika þeirra og bæta þeim í gróskumikinn brunn íslensks tónlistarlífs.

Justyna Wilczyńska
a.k.a. Stína Satanía

MSEA
Cryptochrome

Latest from BLOG

Go to Top
%d bloggers like this: