Keeping a finger on the pulse

Segulmögnuð áhrif tónlistar eftir samkomubann

in BLOG/IS by

Pistillinn var skrifaður fyrir Tengivagninn á Rás1 og birtist þar, miðvikudaginn 8. júlí 2020, og á vefsíðu RÚV, sunnudaginn 12. júlí 2020.

Samkomubannið hafði í för með sér algjört tónleikabann. Fyrir mér varð það fullkomið tækifæri til að pæla í mikilvægi lifandi tónlistarflutnings. Tónleikar eru ekki bara veisla fyrir eyrað, þeir eru líka sjónræn upplifun, tónlistin vekur tilfinningar og jafnvel gæsahúð. Margra vikna bið eftir lifandi tónlistarflutningi kveikti hjá mér áhugaverðar vangaveltur um nándina sem skapast á tónleikum, milli flytjenda tónlistar og hlustenda, og hversu mikilvæg hún er.

Fyrir nokkrum vikum fékk ég þessar hugmyndir staðfestar á tónleikum Árstíða á Café Rosenberg, en þeir félagar kunna vel að mynda sterk tengsl við áhorfendur. Andrúmsloftið á tónleikastaðnum magnaði upp þessa tengingu. Café Rosenberg er nú tekinn til starfa á nýjum stað eftir nokkurra ára hlé og ég vona innilega að framhald verði á flutningi gæðatónlistar í nándinni sem skapast í þessu góða andrúmslofti í kjallaranum á Vesturgötu 3.

Margt tónlistarfólk hefur spilað á Café Rosenberg í gegnum tíðina: söngvaskáld, þjóðlagafólk, blúsarar og djassarar þeirra á meðal. Meðal annars komu þar fram reynsluboltar eins og Eliza Newman og Lára Rúnars, sem báðar hafa gefið út efni á síðustu mánuðum. Mig dreymir um að yngri kynslóð tónlistarkvenna fái sömu tækifæri til að flytja eigin tónlist fyrir áheyrendur. Tímarnir breytast en hæfileikaríkar og skapandi tónlistarkonur halda áfram að styrkja íslensku tónlistarsenuna.

Ein af þeim sem hafa fangað athygli mína fyrir heillandi framkomu á sviði er söngkonan og tónskáldið Salóme Katrín Magnúsdóttir. Þeir sem þekkja hljómsveitina Between mountains ættu að kannast við hana. Hún segist flytja tónlist til heiðurs heiminum og hafa lengi verið í faðmi tónlistarinnar. Samt er ekki langt síðan Salóme Katrín hóf að flytja eigin tónlist fyrir almenning. Hún stökk í fyrsta skipti upp á svið í fyrra, fyrir framan stóran hóp áhorfenda á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður. Ég sá hana spila á AirWhales hátíðinni sem var haldin á Hlemmi Square á sama tíma og Iceland Airwaves stóð yfir. Ég mætti frekar þreytt á tónleikana en hún náði á mjög skömmum tíma að peppa alla viðstadda, þar á meðal mig, með glaðlegri framkomu sinni. Salóme Katrín kann að skapa tilfinningalega nánd, andrúmsloftið varð blíðlegt og ljúft eins og þarna væru vinir og kunningjar saman komnir.

Salóme Katrín gaf nýlega út fyrsta lag sitt, „Don‘t Take Me So Seriously“ og ætlar að gefa út aðra stuttskífu um miðjan ágúst ásamt tónlistarmyndbandi. Bæði lögin eru af EP-plötu Salóme Katrínar, „Water“, sem stefnt er á að gefa út í haust.

Aukakrydd í laginu „Don‘t Take Me So Seriously“ er víóluleikur Ástu Kristínar Pjetursdóttur, sem sjálf er að feta eigin sólóferil með sjarmerandi rödd sinni. Í fyrra kom út fyrsta breiðskífa Ástu, „Sykurbað“.

Mig langar líka að beina kastljósinu að annarri tónlistarkonu, Sunnu Friðjóns, sem semur eins konar bíómynda-kammer-popp. Hún hlaut klassískt tónlistaruppeldi sem kemur sterkt í gegn í fallegri kammertónlistinni á fyrstu plötu hennar, Enclose, sem kom út í ársbyrjun 2018. Platan var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2018 sem plata ársins í opnum flokki, en erfitt var að keppa á því ári á móti Gyðu Valtýsdóttur sem hlaut verðlaunin í þessum flokki fyrir plötuna „Evolution“.

Kjarninn í tónlist Sunnu Friðjóns er píanóleikur og áhrifarík rödd, sem virkar eins og segull. Sunna byggir markvisst upp dularfulla stemningu, í bakgrunni eru dimmir strengir og blásturshljóðfæri. Það leynist skuggi í tónlistinni, en hann er fagur og dreymandi.

Sunna Friðjóns vinnur nú að annarri plötu sinni. Upptökur fóru fram í hinu séríslenska og heimsfræga hljóðveri, Sundlauginni. Platan er væntanlega á leiðinni en á meðan við bíðum mæli ég með að fylgjast með Sunnu á samfélagsmiðlum.

Ég væri ekki sú sem ég er, ef ég myndi ekki minna á að íslenska tónlistarsenan samanstendur ekki bara af innfæddu tónlistarfólki. Nokkrar skapandi sálir hafa valið Ísland sem sitt heimaland, af ýmsum ástæðum og ástríðum, og þær eru meðal þeirra sem mynda tónlistarlandslagið á Íslandi.

Ein af þeim er Jelena Ćirić, en fyrsta plata hennar, „Places“, kom út árið 2014. Hún segist sjálf miða að því að tónlistin sé stílhrein með því að leggja áherslu á rödd og texta. Það heyrist á útsetningunum og kemur líka vel í ljós á tónleikum, þar sem Jelena seiðir áheyrendur til sín með hlýrri og fallegri rödd. Hún býr að einstökum tónlistarbakgrunni þar sem blandast saman djass, popp og serbnesk þjóðlagatónlist.

Ég gleymi aldrei tónleikum Jelenu Ćirić á Kex Hostel, á Melodica Reykajvik tónlistarhátíðinni í fyrra. Þá loksins varð ég vitni að henni syngjandi við píanóið og mér fannst ég vera komin í einhvers konar undraland. Allt frá fyrsta lagi náði hún djúpum tengslum við hlustendur með náttúrulegum töfrum. Jelena deilir sögum, bæði í gegnum tónlistina og með spjalli milli laga.

Snemma á þessu ári fór Jelena í stúdíó. Upptökur í heimahljóðveri Péturs Ben báru árangur og eftir samkomubannið kláraði Jelena upptökur í Sundlauginni. Sjálf stjórnaði hún upptökum ásamt Alberti Finnbogasyni. Ég forvitnaðist um hvernig gengi með nýja efnið, að sögn Jelenu er hljóðblöndun og eftirvinnsla í fullum gangi. Jelena deildi því líka að fyrir henni er nýja platan eins og einhvers konar eldspýtustokkur. Hægt er að taka eitt lag úr eins og eldspýtu úr stokki, kveikja, og njóta um stund sögu sem er eins og loginn á eldspýtunni. Eitt af lögunum sem verður á nýju plötunni er „Other Girls“, sem kom út sem stuttskífa fyrir tveimur árum.

Fyrir áhugasama gefst gott tækifæri til að njóta tónlistar Jelenu á tónleikum í Norræna húsinu 9. ágúst. Þar flytur hún lögin sín með Karli James Pestka sem spilar á víolu og Margréti Arnardóttur harmónikkuleikara, en þau leika með henni á plötunni.

Samkomubannið minnti alvarlega á að ýmislegt getur gerst. Tónleikahald gæti alveg lagst af. Þá myndi versta martröð mín verða að raunveruleika og heyrnin gæti bara yfirgefið mig! En þá trúi ég að heyrnarminnið verði til staðar og glaðlegar minningar frá tónleikum búi í tónlistardeild hjarta míns. Veitum fallegri tónlist inn í hjörtu okkar, tökum þátt í að skapa ógleymanlega fegurðarstund á tónleikum sem við treystum okkur að mæta á! Njótum þess að skapa tengsl milli okkar og tónlistarfólks á lifandi tónleikum, leyfum listinni að stækka hjörtu okkar!

Justyna Wilczyńska
a.k.a. Stína Satanía

Salóme Katrín
Sunna Friðjóns
Jelena Ćirić

Photo by Ásgeir Helgi Þrastarson

Latest from BLOG

Go to Top
%d bloggers like this: