Keeping a finger on the pulse

Eitt og annað um öryggi og virðingu á tónleikum

in BLOG/IS by

Undanfarið hefur talsvert verið rætt um hvernig bæta megi upplifunina af íslenskri tónlist, sú umræða hefur að mestu snúist um að fjölga skuli tónleikastöðum í borginni. En það er önnur hlið á þessu máli, sem snýr að upplifun tónleikagesta, sem ætti að vera ógleymanleg á jákvæðan hátt, nefnilega að þeir upplifi sig örugga. Hér eru nokkur orð um öryggi.

Öll viljum við fara á tónleika í rými sem er öruggt og þægilegt. Þess vegna ættu staðir sem hýsa tónleika að leggja áherslu á að sjá til þess að þeir séu ánægjulegir, bæði fyrir tónlistarfólk og tónleikagesti. Trúlega höfum við öll reynslu af því að ein drukkin manneskja hefur truflað tónleika á mjög leiðinlegan hátt. Ofbeldi og kynferðisleg áreitni á ekki að líðast á tónleikum. Um það eru allir sammála, þú líka, ekki satt? Það er á valdi starfsfólks tónleikastaða að sjá um að viðburðir fari vel fram og að óæskileg hegðun eigi sér ekki stað.

Það er algjörlega ólíðandi að ofurölvi tónleikagestur ráðist inn í persónulegt rými tónlistarmanns á sviði, sé nánast beint í andlitinu á honum, ögri honum og sýni ofbeldisfulla hegðun. Tónlistarmenn veita tónleikastöðum ákveðna þjónustu. Þegar þeir eru á sviðinu eru þeir heiðursgestir staðarins. Starfsmenn ættu því að sjá til þess að þeim líði vel og vinna með þeim að því markmiði að upplifun tónleikagesta sé sem best. Því ætti starfsfólk staðarins að taka í taumana ef einstaklingur eða hópur sýnir ógnandi hegðun og sýnir vinnu starfsmanna óvirðingu, hvort sem þeir eru þjónar eða tónlistarmenn. Starfsfólk á að grípa inn í ef málin virðast vera að fara úr böndunum, til að gæta fyllsta öryggis tónlistarmanna og tónleikagesta. Þetta hefur áhrif á orðspor tónleikastaða. Það er algjörlega óboðlegt, að mínu mati, að starfsfólk tónleikastaðar láti sem ekkert sé þegar flytjendur láta vita af óþægilegri hegðun ölvaðra einstaklinga, að starfsfólkið leyfi viðkomandi að fara yfir strikið án þess að grípa inní. Með því að aðhafast ekkert er starfsfólkið að leggja blessun sína yfir áreitnina.

Á flestum tónleikastöðum í Reykjavík hafa gestir getað verið alveg öryggir í gegnum tíðina og hafa getað treyst starfsfólkinu. Sama hvað hefur gerst hef ég aldrei verið þar í vafa um öryggi mitt og annarra gesta. Þegar vinkona mín var áreitt á tónleikastaðnum Húrra (blessuð sér minning hans) tóku starfsmenn málin í sínar hendur, það varð engin frekari umræða, ofbeldismaðurinn var rekinn út. En því miður er það ekki svo alls staðar, að öryggi gesta sé gætt þegar þeir eru að skemmta sér. Eins dapurlegt og skelfilegt og það nú er.

Sjálf hef ég unnið við þjónustustörfin og tel mig búa yfir þokkalegri samkennd, þess vegna er ég algjörlega mótfallin þeim þrýstingi sem starfsfólk staðanna er beitt með undirmönnun þegar viðburðir eru haldnir og ekki er nægur fjöldi á vakt til að tryggja að fyllsta öryggis sé gætt. Það er ólíðandi að ábyrgðin á því að allt fari vel fram sé á herðum barþjóna, sem sjálfir eru að sinna sínu starfi, en hafa ekki dyravörð eða viðburðastjóra á staðnum. Ef sá sem skipuleggur viðburðina hefur ekki mannafla til að tryggja að þeir fari vel fram er betra að fresta þeim eða aflýsa þeim. Sem tónleikagestur ber ég meiri virðingu fyrir skipuleggjanda sem aflýsir tónleikum á síðustu stundu vegna skorts á starfsfólki heldur en hinum sem heldur tónleikunum til streitu, þrátt fyrir skort á starfsfólki og býður þar með hættunni heim. Ég veit að við búum á Íslandi, en „þetta reddast” á ekki við um allt í heiminum. Til að mynda, ekki um áreitni. Áreitni á í engum tilfellum að líðast, jafnvel þó þú hafir engan starfsmann til að fylgjast með framgangi tónleika, eða þó þú þyrftir helst að spara í mönnun þetta kvöld. Skemmtun og listir eru ekki bara leið til að græða peninga. Skemmtun og listir eru næring fyrir sálina. Og sálinni er rótt ef grundvallaratriði eru tryggð: öryggi og þægindi. Það er á ábyrgð tónleikastaða að tónleikar fari vel fram og að tónleikagestum finnist þeir vera öruggir. Ef svo er ekki á að vísa þeim sem ógnar öryggi gesta á dyr, tafarlaust.

Vanvirðing við tónlistarfólk og tónleikagesti er aumkunarverð og fráránleg. Lifandi tónlistarflutningur krefst þess að ýmis tæki og tól séu fyrir hendi. Tónleikastaðir tryggja aðgengi tónlistarfólks að hljóðkerfi, en allt annað sem kemur við sögu, að hljóðfærum meðtöldum, eru eign tónlistarfólksins, sem það hefur eignast með þrotlausri vinnu og miklum tilkostnaði. Sýnið þeim lágmarksvirðingu fyrir alla þeirra vinnu og undirbúning þegar þeir stíga á svið og bjóða ykkur afurðir sínar: list og skemmtun. Munið að tónlistarfólkið hefur úthellt blóði, svita og tárum til að komast þangað sem það er og nú eruð þið að njóta þess, jafnvel ókeypis, heppin eruð þið! Þið gerið ykkur kannski ekki grein fyrir kostnaðinum sem liggur að baki því að þessir tónleikar eigi sér yfirlett stað og að þeir séu jafn góðir og raun ber vitni, þökk sé einnig hljóðfærum og öðrum búnaði sem er settur upp þannig að tónlistin skili sér sem best.

Nú er mikið talað um að endurreisa Reykjavík sem tónleikaborg. Ef þið verðið vör við vanvirðingu eða áreitni á tónleikastöðum og ef starfsfólk grípur ekki inn í þegar kemur að grundvallaratriðum eins og að tryggja öryggi bæði gesta og þeirra sem koma fram, þá á staðurinn ekki skilið að vera kallaður tónleikastaður. Við sem samfélag getum gert betur og við tónleikagestir eigum betra skilið.

Justyna Wilczynska
a.k.a. Stína Satanía

Latest from BLOG

Go to Top
%d bloggers like this: