Pistillinn var skrifaður fyrir Tengivagninn á Rás1 og birtist þar, föstudaginn 2. ágúst 2019, og á vefsíðu RÚV, laugardaginn 10. ágúst 2019.
Sumir trúa á engla, aðrir á álfa, og enn aðrir á fegurð sírenusöngsins. Hefurðu fengið gæsahúð þegar þú heyrir fallegt lag? Það gerist stundum hjá mér, sérstaklega þegar ég hlusta á lifandi tónlist. Svo nú loka ég augunum og rifja upp minningar frá tónleikum, töfrandi raddir íslensks tónlistarfólks sem hafa kallað fram gæsahúð hjá mér. Það býr til himneskt andrúmsloft og í mínum huga er þetta tónlistarfólk sírenur. Á ég að setja í mig eyrnatappa eða frekar bara að fara af stað í leiðangur og kanna söngmeyjastrandir við eyjuna sem við í þessum pistli köllum… Ísland? Stundum á tónleikum fæ ég þessa katharsis-tilfinningu – eins og ég hafi dáið og fæðst upp á nýtt með sömu melódíuna í höfðinu.
Marteinn Sindri
Einn þeirra sem kafa ofan í gríska goðfræði og nota tíguleg tákn og líkingar frá Forn-Grikkjum, er Marteinn Sindri – lagahöfundur, kórfélagi og píanóleikari að upplagi, með gítar sem annað hljóðfæri. Fyrsta breiðskífan hans kom út 16. maí. Hún ber heitið „Atlas“ og vísar til gríska títansins sem ber himinhvelfinguna á herðum sér. Titillinn vísar líka í kortagerð heimsins, bæði ímyndaða og raunverulega, þar sem í textunum á plötunni er meðal annars ort um undarlega staði. Þá er einnig fjallað um þá sérstæðu reynslu að vaxa úr grasi og þurfa að standa á eigin fótum. Þar að auki snýst platan um það að vera einn. Þó það sé svolítið hörmulegt í tilfelli Atlasar, þar sem hann var dæmdur til einveru, er það að vera einn stundum bara það besta sem getur komið fyrir – að vera einn með sinar hugsanir, sérstaklega á ferðalagi. Og hvert leiðir áttavitinn á vínylumslagi „Atlasar“ okkur nú? Af tilviljun var ég nýbúin að gleypa í mig forngrísku borgina Aþenu þegar ég heyrði plötuna hans Marteins Sindra fyrsta skipti.
„Atlas“ var um fjögur ár í smíðum. Marteinn Sindri byrjaði að semja efni í anda þjóðlagatónlistar. Þó að hann hafi spilað í nokkrum hljómsveitum, meðal annars Markús and The Diversion Session, þorði hann ekki að syngja í upphafi sólóferils síns. En rödd hans hefur þroskast og dafnað. Platan er innblásin af djassi og poppi vegna vináttu og samstarfs við Daníel Friðrik Böðvarsson sem stýrði upptökum á henni. Auk þess er „Atlas“ í rauninni samstarfsverkefni sem fullt af yndislegu fólki kemur að. Platan er ekki enn komin út á vínyl, en það er hægt að styðja útgáfuna á Karolina Fund. Hann er þegar byrjaður að pæla í næstu plötu. Hafið samt í huga að „Atlas“ verður flutt í heild sinni á útgáfutónleikum í Iðnó 18. september. Ekki láta ykkur vanta.
Árný
Af og til kemur fyrir að ég sæki tónleika þar sem ég er með gæsahúð allan tímann. Ég get viðurkennt að öll verkefnin sem ég fjalla í dag um snerta marga strengi í brjósti mínu. Þau vekja þrá um að finna fegurð og einlægni á þessari tónlistareyju, með tónlistarfólki sem kann að laða að sér áhorfendur eins og hómerskar sírenur. Árný Árnadóttir vakti athygli mína á leynitónleikum sem Paradís Sessions hélt á bryggjunni, Ægisgarði. Þvílík upplifun! Ægisgarður er rými með ofsalega góðan hljómburð en er því miður allt of sjaldan notaður sem tónlistarstaður. Hann geymir ýmis leyndarmál og það er smá áskorun að finna í fyrsta skipti út hvar í óskpunum þessi staður eiginlega er!
Árný er ung og upprennandi söngkona sem gaf út sína fyrstu breiðskífu í lok maí í fyrra. „See Through“ heitir hún og inniheldur átta frumsamdar silkimjúkar ballöður sem fjalla um að leyfa sér að hafa tilfinningar og hræðast ekki að vera örlítið berskjaldaður fyrir sjálfum sér og öðrum. Árný er að ryðja sér braut í tónlistarheiminum með því að blanda hárfínum píanó- og gítarlínum saman við viðkvæm rafhljóð. Tónlistarframleiðandinn Stefán Örn Gunnlaugsson passaði upp á að útkoman yrði fullkomin! Efnið á See Through er áhrifamikið og býður upp á mismunandi tilfininngar þar sem fléttast saman viðkvæmi og styrkur, bæði í tónlist og textunum sem Árný tjáir með ríkri rödd sinni. Fyrir þetta dýrka ég sérstaklega lagið „Barriers“.
Hrím
Síðasta tónlistarverkefnið sem mig langar að benda á í dag er ekki valið af neinni tilviljun. Á vefsíðu sinni bar einn af liðsmönnum þessarar hljómsveitar saman söng sírenu og söng Aspar Eldjárn. Þessi hljómsveit, sem spilar raf-folk, heitir Hrím. Hana skipa áðurnefnd Ösp Eldjárn, sem er bæði söngkona og lagasmiður, söngvarinn og tónlistarframleiðandinn Anil Sebastian frá Sri Lanka og hljóðmaðurinn Cherif Hashizume sem spilar á modular hljóðgervil. Hashizume er af japönskum og egypskum uppruna og vann í um 10 ár með Jon Hopkins.
Hljómsveitin Hrím hefur mestmegnis verið falin í stúdíói og búið til tónlist, en hljómsveitin þreytti frumraun sína um daginn með laginu „Ástarnetið“. Að sögn Aspar er lagið henni mjög kært, og er í rauninni eitt af fyrstu lögunum sem hún samdi. Hún hóf nám í skólanum Institute of Contemporary Music í London árið 2011 og lauk BA-prófi í skapandi tónlist 2014. Ári áður en hún lauk námi kynntist hún Anil Sebastian. Hann stjórnar kór, London Contemporary Voices, og Ösp fór í prufu. Sem betur fer komst hún inn. Eftir það fóru þau Anil að vinna saman og Ösp sýndi honum þetta litla lag, sem hún samdi við eitt af uppáhaldsljóðunum sínum eftir Pál Ólafsson, eitt af hennar uppáhalds skáldum. Anil tók lagið á annað þrep, segir Ösp, með nýrri hljóðfæraskipan og útsetningu og svo breyttist umgjörðin enn meira þegar Cherif Hashizume bættist í hópinn og þau urðu tríó.
Hrím er ekki enn þekkt hérlendis en hefur komið fram á sviði, til dæmis í Frakklandi í júlí 2016, þar sem þau fluttu „Ástarnetið“ með 50 manna kór, frammi fyrir 800 manna áhorfendahópi. Ég mæli algjörlega með því að horfa á myndskeið frá tónleikum í London þar sem raddir Aspar og London Contemporary Voices ásamt 12 Ensemble ómuðu undir hvelfingu 18. aldar St. Johns kirkjunnar í Hackney.
Hrím spilar á Iceland Airwaves í ár, þar sem þau ákváðu að það væri kominn tími til að deila lögunum sínum með umheiminum.
Lokaorð
Ef íslenskar söngsírenur seiða menn, hvaða lag er þá nógu fagurt til þess að verða síðasta lagið á ævi þinni? Kannski kemur í ljós að söngsírenurnar eru ekki hættulegar, þær bara víkka tónlistarsjóndeildarhringinn þinn?
Justyna Wilczyńska
a.k.a. Stína Satanía