Keeping a finger on the pulse

Þrjár vanmetnar rafsveitir íslenskra kvenna

in BLOG/IS by

Pistillinn var skrifaður fyrir Tengivagninn á Rás1 og birtist þar, miðvikudaginn 17. júlí 2019, og á vefsíðu RÚV, sunnudaginn 21. júlí 2019.

Að vera milli svefns og vöku um bjartar sumarnætur minnti mig á tónlist sem ég heyrði í fyrsta skipti í vetrarmyrkrinu. Þrjú spennandi raftónlistarverkefni. Í huga mínum kallaðist fram minning um tóna sem yljuðu mér á langri dimmri leið minni í vinnuna. Ekki misskilja mig, ég sakna ekki vetrardimmunnar, en samt er eitthvað sjarmerandi við tónlist sem sogar til sín hlustendur. Stundum hljómar tónlist best þegar maður hlustar ekki í mikilli birtu. Þá finnur maður hvað hún er sjálf glóandi. Í mörgum tilvikum er íslensk tónlist skilgreind sem dularfull og fíngerð, og utan Íslands er því trúað að á einhvern hátt endurspegli hún íslenska náttúru, hún er skreytt með leyndarmálum, óvissu og undri sem mörgum þykir stórkostlegt.

Skaði

Síðastliðinn vetur hefði ekki verið samur án plötunnar „Jammið“ eftir hana Skaða Þórðardóttur. Platan var gefin út í fullri lengd í lok nóvember í fyrra á vegum íslensku jaðarútgáfunnar Falk Records. Samspil tónanna og laglínanna sendi mig í ferðalag um tilfinningalega tónlistarfortíð mína. Hin eina sanna Skaði er fjöllistakona sem hefur flutt sína raftónlist frá því í janúar 2016. Skaði lýsir tónlistinni sinni sem „glittercore“. Og þetta er alls ekki bull. Hún vekur athygli eins og glansandi glimmer og einhvern veginn finnst mér hún hljóma mögnuðust þegar hún er í sviðsljósinu miðju þar sem hún er örugglega fædd til að verða flytjandi. Tónleikar Skaða snúast ekki bara um tónlist. Þeir eru djúp stefnuyfirlýsing, performance og tónlist, en aðallega hefur hún bara gaman af því að flytja listina sína fyrir framan áhorfendur. Þess vegna finnst mér sjarmi hennar og sjálfsöryggi á sviði geggjuð. Ég held að enginn annar geti endurlífgað mig eins fljótt og hún, þó ég væri mætt á tónleika dauðþreytt. Hún virkar eins og þrefaldur espresso.

Auk sólóferilsins er Skaði sérlega flink í alls konar samvinnu, hún er meðvituð um að saman geta listamenn vakið mun meiri athygli en ef þeir vinna einir og sér. Í fyrra tók hún þátt í verkefni undir heitinu Mix Noir, þar sem hún vann með Mighty Bear, Kríu og Seint. Þau gerðu ábreiður af þekktum dægurlögum hvert í sínu lagi og leyfðu sínum eigin stíl að njóta sín. Þegar kom að kynningarstarfsemi og tónleikahaldi sameinuðu þau krafta sína. Samstarf Skaða og söngkonunnar, tónlistarframleiðandans og lagasmiðsins Kríu (en á bakvið það nafn er Elísa Einarsdóttir) varð meira, það leiddi af sér tvö lög á „Jamminu“, „The Vacuum of The Heart“ og „Ástarseiður“, þetta finnst mér mjög vel heppnað snillingadúó. 

Skaði er líka skapandi á öðrum sviðum, hún hefur lokið BA-námi í myndlist frá Konunglega Listaháskólanum í Haag í Hollandi. Auk þess að halda einka- og samsýningar á myndlistarverkum sínum hér á landi og erlendis, kemur Skaði víða fram í Reykjavík og heldur tónleika meðal annars í Hollandi og Þýskalandi. Næst á dagskrá eru einmitt fleiri tónleikar í Berlín og Amsterdam í lok júlí og vinna að nýju efni. Von er á fyrstu smáskífu hennar í haust. 

Rauður

Þegar ég kynntist Auði Viðarsdóttur fyrir nokkrum árum við sjálfsboðaliðastörf í verkefninu Stelpur Rokka!, áttaði ég mig ekki strax á því að hún var áður hljómborðsleikari og söngkona indí-rokkhljómsveitinnar Nóru, sem ég kannaðist við áður en ég flutti til Íslands árið 2013. Með Nóru gaf Auður út tvær plötur árið 2010 („Er Einhver Að Hlusta?“) og 2012 („Himinbrim“). Í fyrra safnaði Auður hins vegar allri sinni skapandi orku saman í litla heimastúdíóið sitt í Svíþjóð og samdi tónlist undir nafninu Rauður.

Tónlist Rauðar hefur verið lýst sem lagskiptri: hún er tilraunnakennt og tilfinningaríkt elektró-akústískt popp, þar sem vel skapað andrúmsloft umvefur hlustendur. Rauður fléttar eigin marglaga röddum saman við einfaldar en áhrifaríkar lagasmíðar og þéttan undirtón ýmissa hljóðgervla og sampla. Textarnir fjalla yfirleitt um einhvers konar heimsendi – þó ekki alltaf í bókstaflegum eða neikvæðum skilningi. 

Á síðasta ári gaf hún út lagið „Dönsum“ ásamt myndbandi. „Tunglið“ er því annað lagið og í síðasta mánuði var frumflutt þriðja lag Rauðar sem ber heitið „Semilunar“. Samhliða tónlistinni starfar hún að því að byggja upp alþjóðlega kollektívið Synth Babes, sem er femínískt samstarfsnet sem miðar að því að efla konur, trans og kynsegin fólk í raftónlist, með útgáfu, nýsköpun í tækni og tónlist, viðburðum og námskeiðum. Með þeim stefnir Rauður að því að gefa út sólóplötuna sína í lok september. 

Grúska babúska

Þar sem ég er ekki séríslensk, finnst mér rosalega fyndið hvernig Íslendingar virðast dýrka dönsku Hróarskelduhátíðina, eins og hún sé hin eina sanna tónlistarhátíð í heiminum. Hún er vissulega glæsileg, en gleymum ekki bresku Glastonbury tónlistarhátiðinni sem er stærri en Hróarskelda, hana sækja um 70 þúsund fleiri gestir. Báðar hátíðirnar voru settar á laggirnar á mjög svipuðum tíma, 1971-72. Þarf ég virkilega að benda á hversu risastór munur er á danska og breska tónlistarmarkaðnum, þegar kemur að möguleikum og tækifærum?

Þess vegna finnst mér ég ekki geta annað en nefnt að á einni af stærstum tónlistarhátíðum heimsins, Glastonbury, kom nýlega fram íslenska rafhljómsveitin Grúska Babúska. Hljómsveitin var stofnuð 2012 og nú skipa hana fjórar konur – Harpa Fönn Sigurjónsdóttir, Íris Hrund Þórarinsdóttir, Dísa Hreiðarsdóttir og Erla Stefánsdóttir – en hljómsveitin hefur verið fjölmennari. Síðasta plata Grúsku Babúsku, 5-laga EP-platan „Tor“, kom út 1. september í fyrra á vegum íslensku raftónlistarútgáfunnar Möller Records, sem er vel þekkt í raftónlistarheiminum utan Íslands. Platan er nefnd eftir Glastonbury Tor, þar sem efnið var samið á tíu-daga-tónsmíðaferð til Glastonbury í Bretlandi árið 2016. Hljómsveitin náði að endurspegla sögu- og goðsagnaríkt umhverfi staðarins bæði með textunum og tónlistinni. Þó að mér þyki ekki auðvelt að velja eitt lag úr draumaheimi „Tor“ , mæli ég sérstaklega með því að hlusta á lag sem ber heitið „Princess?“.

Lokaorð

Talandi um íslenska raftónlist: ég kom bara með þrjú fersk verkefni sem öll eru úr smiðjum kvenna. Framboðið er þó miklu meira. Stundum virðist mér að tónlistarkonur okkar séu sýnilegri erlendis en á heimavelli. Horfum meira í kringum okkur og ræktum garðinn okkar betur. Sjáum við fleiri tónlistarkonur sem við þurfum að segja frá? Eða erum við búin að ákveða að þær séu dýrmætt leyndarmál, eins og undursamlega tónlistarlandslagið sem þær skapa?

Justyna Wilczyńska
a.k.a. Stína Satanía

Skaði
Rauður
Grúska Babúska

Latest from BLOG

Go to Top
%d bloggers like this: