Keeping a finger on the pulse

Áfram framsækið rokk Íslands!

in BLOG/IS by

Pistillinn var skrifaður fyrir Tengivagninn á Rás1 og birtist þar, þriðjudaginn 2. júlí 2019.

Um daginn tók ég þátt í umræðu um íslenska tónlist þar sem var sagt frá því að Björk hefði ekki verið sérstaklega vinsæl á Íslandi þegar tónlistarferill hennar í útlöndum var að hefjast. Tónlist hennar var ekki skilgreind sem hluti af meginstraumnum hér heima. Þetta kom mér í skilning um hvað sjónarhornið á íslenskt tónlistarfólk er ólíkt eftir því hvort sá sem talar er Íslendingur eða ekki. Utan Íslands má segja að íslenskur tónlistarmaður sé ákveðið „fyrirbæri“ og margir spá í hversu yndislegt sé að búa og skapa á Íslandi. Ég velti þessu fyrir mér og komst að þeirri niðurstöðu að ein af fallegustu hliðum þess að fylgjast með staðbundnu tónlistarlífi er að sjá hvernig tónlistarverkefnin spretta upp, stækka og blómstra á íslenskum vettvangi en fá líka verðskuldaða athygli utan Íslands, stundum oftar en hérlendis.

En til þess að geta talað um „tónlistarvettvang“ þarf að vera til rými þar sem fólk getur flutt tónlistina sína, þá meina ég EKTA tónleikastaði. Því miður er slíkum stöðum sífellt að fækka í Reykjavík. Í síðasta mánuði var t.d. ákveðið að breyta rekstrarfyrirkomulagi skemmtistaðarins Húrra við Tryggvagötu. Ásgeir Guðmundsson sem sér um tónlistarhátíðina Innipúkann þurfti að flytja hátíðina af Húrra. Fyrir mig sem tónlistaraðdáanda eru þessar fréttir afar sorglegar, og gætu líka verið nagli í líkkistuna fyrir tónlistarfólk.

Captain Syrup

Einmitt á Húrra upplifði ég fyrsta skipti tónleika hljómsveitarinnar Captain Syrup sem skapar andrúmsloft í líkingu við jaðarþungarrokkhljómsveitina Primus, með áhrifum frá fönki, þungarokki og rokki. Captain Syrup er ein af þessum örfáu hljómsveitum sem ég myndi mæta stundvíslega, jafnvel hlaupandi, á tónleika hjá og ekki missa úr tón af tónleikum þeirra, en ég þarf að viðurkenna að ég er alls ekki íþróttamanneskja! Þeir sem hafa séð hljómsveitina á sviði vita hversu magnaður Björn Heimir Önundarsson bassaleikari er, hann spilar eins og morgundagurinn sé ekki til. Ekkert skrítið, enda fékk hann verðlaun fyrir bassaleik á Músíktilraunum 2014. Hljóðið í tríóinu er mergjað og hæfileikar allra liðsmanna – Kjartans Árna Kolbeinssonar á gítar og Ríkharðs Sigurjónssonar á trommur – benda til þess að þeir séu á hraðri leið með að verða tónlistarsnillingar. Djass, rokk, fönk, þungarokk, þeir blanda saman tegundum án erfiðismuna og bjóða hlustendur velkomna í heillandi tónlistarfrumskóg, það er ómögulegt að segja í hvaða átt þessir tónlistarprakkarar fara næst.

Captain Syrup hefur gefið út tvær plötur – Promo Scratch í lok 2015 og Þorskaklám 2017. Í sumar stefna strákarnir á að klára 7-8-laga plötu með nýju efni sem var frumflutt á tónlistarhátíðinni Secret Solstice. Ég bendi samt þeim sem eru að byrja að kynna sér Captain Syrup-ævintýrið á lagið “Tales of Woodman”.

Flavor Fox

Mig langar líka að segja aðeins frá hljómsveit sem er glæný og gæti hrært aðeins upp í íslensku tónlistarsenunni. Umrætt verkefni kallast Flavor Fox og er tríó sem spilar framsækið popp. Hljómsveitina skipa Stefán Laxdal úr stónerrokk-sveitinni Ottoman, Ævar Örn Sigurðsson úr Zhrine (sem er vinsælli utan Íslands er hérlendis) og Höskuldur Eiríksson úr meðal annars sludge rokk- hljómsveitinni Godchilla (en hann hefur líka spilað reggí með Amabadama og miklu fleirum). Þeir hafa allir verið virkir í íslensku tónlistarlífi og ég mæli með að hlusta á fyrsta lag þeirra “Pouring Rain”, sem Flavor Fox sendi frá sér þann 4. júní. Hæfileikar hljómsveitinnar eru athyglisverðir og þar að auki sækja þeir hnyttilegan innblástur í nútímapopptónlist. Tónlistartegundin, sem þeir fundu sína leið í, er kannski ekki sú vinsælasta á Íslandi núna, hér snýst allt um hip hop og popp, en Flavor Fox stendur fyrir gæði af svipuðum toga og alþjóðlegar hljómsveitir sem ég dýrkaði á unglingsárum. Ég vona innilega að framundan séu margir möguleikar til að upplifa Flavor Fox á tónleikum. Hafið augun opin, það er meira efni á leiðinni frá þeim!

Lucy In Blue

Persónulega vona ég að margar hljómsveitir detti í lukkupottinn eins gerðist hjá stórkostlegri ungri framsækinni sýrurokk-hljómsveit, Lucy In Blue, sem í lok 2018 skrifaði undir samning við norska útgáfufyrirtækið Karisma Records. Undir þeirra merkjum gaf hún út aðra breiðskífu sína, “In Flight”, í apríl. Vissulega vekur þessi árangur íslenskrar hljómsveitar með manni stolt. Eftir að hafa upplifað tónleika þeirra segi ég ykkur – Lucy In Blue er ein af þessum hæfileikaríku hljómsveitum sem hafa alla burði til að sigra heiminn. Gerum þetta að raunveruleika í fleiri tilvikum. Látum aðra blómstra eða springa úr gleði á tónleikum eins og Lucy In Blue – sem er rosalega smitandi fyrir tónleikagesti.

Lokaorð

Að lokum langar mig að hvetja ykkur til að styðja við staðbundnu senuna. Mætið á tónleika! Kaupið tónlist og varning beint frá hljómsveitum, þar sem það eykur líkurnar á því að íslenskar hljómsveitir lifi af og þróist. Það minnir tónlistarfólkið okkar á að það hefur tilgang að úthella hjarta sínu í skapandi verkefni!

Justyna Wilczyńska
a.k.a. Stína Satanía

Captain Syrup
Flavor Fox
Lucy In Blue

Latest from BLOG

Go to Top
%d bloggers like this: